Hvað er sértæk orðabók?
Frá árinu 2010 hefur Skopos þýðingastofa þýtt texta fyrir yfir 600 stofnanir og fyrirtæki. Textarnir eru jafnmismunandi að eðli og stærð og þeir eru margir, allt frá sértækum leiðbeiningum um færibönd yfir í útboðslýsingu fyrir banka eða ítarlega lýsingu á eiginleikum nýjasta sportbílsins sem er að koma á markað. Alls telja verkefni Skopos vel yfir 25 milljónir orða en til að setja það í samhengi jafngildir það 325 Harry Potter-bókum eða 31 Biblíu.
Hins vegar er sama hvers eðlis textarnir eru, allir fara þeir í gegnum sama ferli hjá þýðendum Skopos. Þannig eru textar undirbúnir, þýddir, lesnir yfir og – ekki hvað síst –orðteknir. Orðtaka texta er einmitt það sem oft tekur hvað mestan tíma hjá þýðendum þar sem hjálpargögn eru gjarnan af skornum skammti þegar kemur að íslensku. Á því eru þó undantekningar og er Hugtakagrunnur utanríkisráðuneytisins og Orðabanki Háskólans þar fremstir meðal jafningja.
Við þessa orðtöku hafa orðið til yfir 100 hugtakagrunnar í þýðinga- og hugtakakerfi Skopos sem telja frá nokkrum tugum orða til tugþúsunda orða hver. Grunnar skiptast gróflega niður í almenna grunna og sértæka. Almennir grunnar eru grunnar sem innihalda altæk hugtök, þ.e. hugtökin eru nánast undantekningalaust notuð sama hvert viðfangsefnið eða viðskiptavinurinn er. Sértækir grunnar eru hins vegar grunnar á ákveðnu sviði með hugtökum sem ólíklegt er að gagnist á öðrum sviðum. Dæmi um almennt hugtak væri orðið maður (e. man) og sértækt hugtak orðið bakkmyndavél (e. rear view camera).
Þriðji flokkurinn eru svo viðskiptavinagrunnar, en þeir innihalda hugtök sem aðeins nýtast fyrir tiltekinn viðskiptavin.
Í kjölfar mikillar umræðu um bága stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi, þar sem skortur á þýddu efni hefur m.a. verið tiltekinn sem ein af ástæðum þess að tungumálið sé í raunverulegri hættu á því að hverfa, fóru starfsmenn Skopos að skoða hvað þeir gætu sjálfir lagt af mörkum til að bæta stöðu íslenskunnar. Fljótlega kom upp sú hugmynd að gefa aðgang að þeim málföngum sem fyrirtækið hefur yfir að ráða, og var þá helst litið til hugtakagrunna þess, í það minnsta sem fyrsta skrefs. Nánar tiltekið var ákveðið að hugtakagrunnur fyrirtækisins á læknisfræði- og lyfjasviði yrði sá fyrsti sem gefinn yrði aðgangur að. Ýmsar tilbúnar lausnir til birtingar gagnanna voru skoðaðar en allar voru þær of flóknar, ófullkomnar, óhentugar eða dýrar.
Þar sem engin lausn virtist í boði á markaðnum var aðeins eitt að gera: að fyrirtækið léti búa til fyrir sig sína eigin lausn og var tekin ákvörðun um það í upphafi árs 2018. Hönnun grunnsins hefur verið í gangi í rúmlega hálft ár, með viðeigandi prófunum og mistökum. Á haustmánuðum 2018 var kerfið tilbúið, og var ákveðið að auk lyfjagrunnsins yrði almennur grunnur fyrirtækisins keyrður inn í hann. Nokkur umræða varð um það að hversu miklu leyti ætti að ritstýra þeim hugtakagrunnum sem aðgangur er veittur að, hversu góð framsetning þeirra yrði að vera til að þeir yrðu birtingarhæfir og hversu miklar upplýsingar ætti að birta. Að endingu var þó ákveðið að birta gögnin að mestu hrá undir þeim formerkjum að ef bíða ætti þar til allt yrði fullkomið yrði sennilega aldrei neitt úr verki. Grunnarnir eru enda sífellt í þróun og mótun og á hverjum degi bætast þónokkur orð við innri grunna fyrirtækisins, sem svo munu finna sér leið í opnu grunnana. Jafnframt er stefnt að því að bæta viðmótið þegar fram líða stundir á ýmsa vegu.
Við biðjum því lesendur að líta ekki á þá hugtakagrunna sem Skopos hefur og mun veita aðgang að sem endanlega heldur sem verk í mótun, rétt eins og tungumálið. Og rétt eins og tungumálið kunna hugtök að breytast, ný að koma inn og önnur að deyja drottni sínum. Alveg eins og það á að vera. Að lokum er okkur bæði ljúft og skylt að geta þess að Málræktarsjóður styrkti gerð hugtakagrunns á sviði læknis- og lyfjafræði og kunnum við sjóðnum bestu þakkir fyrir það.